Hvernig nýtist MDMA í meðferðarskyni?

Flest okkar kannast við tilbúna efnið MDMA, sem gjarnan er kallað „molly”, „alsæla” eða „e-pilla” í talmáli. Þetta merkilega efni sem heitir því vísindalega nafni 3,4-Methylenedioxymetamphetamine, var fyrst þróað árið 1912 af þýsku lyfjafyrirtæki og var upprunalega þróað sem uppbyggingarefni í lyfjum sem stjórna blæðingum, m.a. við skurðaðgerðir. Efnið er bæði örvandi og hugvíkkandi, það veitir orkugefandi áhrif, brenglun í skynjun á tíma og aukna ánægju af skynjunarupplifunum. Það eykur einnig sjálfsvitund og samúð hjá fólki og hafa rannsóknir á notkun MDMA í meðferðum á áfallastreituröskun eða langvarandi geðrænum veikindum sýnt fram á að lyfið nýtist sérstaklega vel og stuðli jafnvel að varanlegum bata.

Seint á áttunda áratugnum og snemma á þeim níunda fékk ákveðinn hópur geðlækna klínískan áhuga á MDMA, þrátt fyrir að lyfið hefði hvorki gengist undir formlegar rannsóknir né fengið samþykki frá matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, FDA. Geðlæknar höfðu þá tekið eftir því að MDMA jók samskiptahæfni sjúklinga í meðferðartímum og gerði þeim kleift að fá nýja, skýrari innsýn í vandamál sín.

Það var einnig um svipað leyti sem MDMA „slapp út” af rannsóknarstofunni og út í skemmtanalífið, þar sem efnið var notað til þess að upplifa breytt ástand, aukna samkennd og alsælu á meðan fólk var að skemmta sér og mögulega neyta annarra efna í leiðinni. Efnið sést almennt á götunni í töfluformi og er þá kallað „alsæla” eða „e-pilla” sem er stytting á enska heitinu „ecstasy pill”. Þegar MDMA kemur í kristalformi kallast það gjarnan „molly” eða „mandy” og er einnig vinsælt til afþreyinganota. MDMA er öflugt efni sem örvar miðtaugakerfið og eru tilætluð áhrif m.a. breytt tilfinningalegt ástand eða ríkari tilfinningar, aukin orka, aukin samkennd og ánægja, aukin gleði, ást og skilningur. Áhrif efnisins koma fram eftir 30-45 mínútur eftir inntöku og getur ástandið varað í allt að 3 til 6 klukkustundir.

Vegna þess hve vinsælt lyfið er í skemmtanalífinu og til afþreyinganota, hafa komið upp allskonar sögusagnir, mýtur og varhugaverðar sögur um misnotkun efnsins, afleiðingar og aukverkanir og auðvitað ofskömmtun og andlát. Þá ert vert að hafa í huga að það MDMA sem fyrirfinnst til afþreytingarnota, hvort sem í töflu eða kristalsformi, er gjarnan blandað með öðrum óæskilegum efnum. Að sama skapi er innihald virka efnisins MDMA í mismunandi styrk eftir því hvaðan efnið er fengið og oft erfitt að vita með vissu hversu mikið er verið að innbyrða þegar efnið er tekið í afþreyingarskyni. Venjuleg „e-pilla” eða skammtur af „molly” inniheldur fjölda annarra lyfja og þ.a.l. lyfjasamsetningar sem geta verið skaðlegar og beinlínis banvænar.

Drýgingarefni sem finnast gjarnan í MDMA sem keypt er af götunni eru m.a. metamfetamín, deyfilyfið ketamín, koffín, megrunarlyfi edefrín, hóstabælandi lyfið dextrómetorfan, heróín, fensýklidýn og kókaín. Þá hafa einnig skaðlegir þungamálmlar, bakteríur og mygla fundist í MDMA sem fæst til afþreyinganota. Það er því alls ekki sambærilegt að neyta MDMA, sem líklegast er óþekkt blanda annarra efna, á næturklúbbi eða hreins MDMA í meðferðartilgangi. Það er mikill áherslumunur þar á og eru vísindamenn, rannsakendur og sálfræðingar sem notast við MDMA í meðferðarskyni alls ekki að mæla með notkun efnisins á óábyrgan, kærulausan hátt sem skemmtilyf. 

Árið 1985 lýsti bandaríska eiturlyfjastofnunin DEA yfir neyðarbanni við MDMA og skilgreindi það sem áhættulyf í hæsta flokki (e. Schedule 1 substance) , þ.a.e.s. „efni sem er gríðarlega ávanabindandi og hefur enga viðurkennda læknisfræðilega notkun eða eiginleika, með mikilli áhættu á misnotkun”. Flest hugvíkkandi efni þ.á.m. MDMA, LSD og psilocybin hafa haldið þessari skilgreiningu allar götur síðan.

Í kringum 1990 fengu vísindamenn sérstök leyfi til þess að nota MDMA til rannsókna á mönnum. Þá átti að kanna hvort MDMA gæti hjálpað við að lina þjáningar hjá dauðvonandi sjúklingum og aukinheldur, hvort lyfið gæti nýst sem viðbót við sálfræðimeðferðum. Hér var um að ræða fyrstu rannsóknir í stýrðu, klínísku umhverfi sem margar hverjar enn eru í gangi en hafa flestar þessara rannsókna sýnt gríðarlega jákvæðar og spennandi niðurstöður á notkun MDMA í meðferðarskyni. Þessar fyrstu rannsóknir urðu sérstaklega til þess að skapa öryggisviðmið í rannsóknum á hugvíkkandi efnum í mönnum, sérstaklega hvað varð hugarfar sjúklings og meðferðarumhverfi. Rannsóknir eru enn í gangi til að kanna meðferðarmöguleika MDMA við ágengri áfallastreituröskun, kvíða hjá einhverfum fullorðnum einstaklingum sem og lífsferlisendakvíða hjá sjúklingum með banvænt krabbamein. 

Þvert á við afþreyingarnotknun efnisins, er sjúklingurinn í MDMA-sálfræðimeðferð alltaf í öruggum höndum sálfræðinga, lækna og þjálfaðs fagfólks. Efnið sem innbyrt er, iðulega í töfluformi, er hreint MDMA, ekki blandað með öðrum óæskilegum efnum og hefur það óneitanlega áhrif á verkan lyfsins og útkomu meðferðarinnar. Fyrirmeðferðin, þ.a.e.s. samtölin og rannsóknirnar sem eiga sér stað á undan MDMA-skammtinum leika einnig lykilhlutverk í meðferðarferlinu en það er gríðarlega mikilvægt að rannsakendur hafi ítarlegar upplýsingar um heilsufars- og áfallasögu sjúklingsins svo unnt sé að vinna úr því sem kemur upp í tímanum þegar MDMA skammturinn er tekinn.

Þegar komið er að meðferðartímanum sjálfum er sjúklingi gefinn ákveðinn skammtur af MDMA í töfluformi og á meðan áhrifin byrja að stigmagnast, hefur sálfræðingurinn samtal við sjúklinginn. Rætt er um aðstæður áfallanna, hvernig þau komu við sjúklinginn og hvaða áhrif þau hafa haft á viðkomandi. MDMA-meðferðin gerir sjúklingnum oft kleift að sjá áföllin ekki aðeins í nýju ljósi, heldur öðlast fólk einnig ákveðna fjarlægð frá þeim og skýrari mynd. Tilfinningar eru dýpri og skynjun er ríkari, sem oft leyfir fólki að kafa djúpt í gamlar minningar, áföll og upplifanir. Þegar MDMA-meðferðartímanum sjálfum er lokið tekur eftirmeðferðin við, þar sem unnið er úr þeim upplýsingum og skynjunum sem sjúklingurinn og sálfræðingurinn upplifðu í meðferðartímanum.

Þá er fólki með háan þrýsting eða þau sem eru þegar í áhættuhópum hvað varðar hjartasjúkdóma, heilablóðföll eða hjartsláttartruflanir ættu ekki að taka þátt í rannsóknum eða meðferðum þar sem notast er við MDMA, þar sem efnið getur haft áhrif á hækkun blóðþrýstings og hjartsláttar. Þar að auki er sjúklingum haldið undir ströngu eftirliti í allt að 8 klukkustundir eða þangað til áhrif efnisins eru horfin að fullu.

Í hefðbundnum rannsóknum á MDMA í meðferðarskyni fá sjúklingar eins marga fyrirmeðferðartíma með sálfræðingi og nauðsyn krefur, þar á eftir 2-3 meðferðartíma með MDMA og geta þeir varað í nokkrar klukkustundir hver. Eftir það fær sjúklingurinn svo eins marga eftirmeðferðartíma og nauðsyn krefur. Ferlið er því langt, strembið og getur oft verið átakanlegt fyrir sjúklinginn en niðurstöðurnar tala sínu máli. 

Á undanförnum árum hafa verið birtar niðurstöður úr stórum og vönduðum rannsóknum á notkun MDMA í meðferðarskyni og gefa þær tilefni til ítarlegrar athugunnar. Nýlega komu fram gögn úr rannsókn þar sem notkun á hefðbundnum SSRI-SNRI þunglyndislyfjum var borin saman við notkun á lyfleysu fyrir sjúklinga með áfallastreituröskun. Samhliða var gerð rannsókn sem metur gagnsemi MDMA-sálfræðimeðferðar samanborið við hefðbundna samtalsmeðferð eingöngu. Rannsóknirnar innihéldu þátttakendur af öllum kynjum og áttu þau það öll sameiginlegt að hafa lent í fjölda flókinna áfalla sem leiddu til áfallastreituröskunnar.

Rannsóknirnar notuðust báðar við sama stigakvarða sem ákvarðar árangur meðferðarinnar, sem gerir auðvitað auðveldara að bera saman gögn milli rannsókna. Sjúklingur telst vera með alvarlega áfallastreituröskun í kringum 50 stig en ef stigin lækka meira en 10 stig á meðan meðferðinni stendur, telst það þýðingarmikill munur á líðan fólks og stöðu áfallastreituröskunarinnar. Samkvæmt þessum rannsóknum minnkaði dagleg notkun á hefðbundnum þunglyndislyfjum einkenni áfallastreituröskunnar um 6 til 14 stig samanborið við lyfleysu, en vert er að hafa í huga að á bilinu 27% - 47% sjúklinga hættu í rannsókninni áður en henni lauk.

Í rannsókninni með MDMA-meðferðinni lækkuðu stigin að meðaltali um sláandi 22 stig samanborið við þau sem fengu hefðbundna sálfræðimeðferð en með lyfleysu í stað MDMA og voru það aðeins um 8% sjúklinga sem drógu sig úr MDMA-rannsókninni. Það sem meira er, þeir sjúklingar sem fengu MDMA-meðferðina voru tvöfalt líklegri en aðrir til þess að uppfylla ekki skilyrði fyrir áfallastreitugreiningu að rannsókn lokinni. Það þýðir að MDMA-meðferðin náði ekki aðeins að aðstoða fólk við að halda einkennum sínum í skefjum, eins og hefðbundin þunglyndislyf gera, heldur sýndi fram á varanlegan bata.

Langtímaáhrif MDMA-meðferðar mælast allt að 12 mánuðum eftir að sjúklingur lauk síðast meðferð. Ári eftir að ofangreindri rannsókn lauk sendu rannsakendur spurningarlista til þátttakenda til þess að meta þessi langtímaáhrif og sögðust þá rúmlega 86% þátttakenda finna fyrir umtalsverðum ávinningi af samsettri sálfræðimeðferð og MDMA-meðferð. Þá sögðust 84% þátttakenda finna fyrir bættir vellíðan, 71% upplifðu færri martraðir, 69% upplifðu minni kvíða og 66 % upplifðu bættan svefn.

Niðurstöðurnar úr öllum rannsóknum bentu til þess að MDMA-meðferðin hefði því hjálpað til við að lina einkenni áfallastreituröskunnarinnar sjálfrar, í stað þess að bæla þau niður. Það eitt og sér sýnir svart á hvítu að MDMA getur nýst okkur einstaklega vel í meðferðarskyni og hefur mikla læknisfræðilega eiginleika, þar sem áfallastreituröskun er mjög algeng á vesturlöndunum. Það sem vekur athygli eru batahorfurnar, en hingað til hafa hefðbundin SSRI-SNRI lyf ekki skilað eins góðum batahorfum og sést hjá sjúklingum í MDMA-rannsóknum í hinum stóra heimi.

Previous
Previous

Hvernig virka hugvíkkandi sveppir?