Hvers vegna notum við hugvíkkandi efni í meðferðarskyni?

Þegar talað er um hugvíkkandi efni í meðferðarskyni, getur það átt við allskonar efni sem teljast hugvíkkandi og í raun allskonar meðferðarúrræði líka. Í víðum skilningi er verið að ræða um ábyrga og skilvirka notkun hugvíkkandi efna í klínísku umhverfi, til þess að vinna úr flóknum geðrænum vanda og í átt að bata. 

Þau hugvíkkandi efni sem hvað mest hafa verið rannsökuð í læknisfræðilegum tilgangi og til meðferða eru m.a. psilocybin sem er virka efnið sem finnst í mörgum sveppategundum, MDMA, LSD og ketamín. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á notkun ayahuasca, meskalín og DMT en meðferðareiginleikar þeirra efna eru vel þekktir meðal frumþjóða heimsins, víða í Mið- og Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Rannsóknir á hugvíkkandi efnum voru einu sinni leyfilegar og að fullu löglegar og sýndu strax jákvæðar niðurstöður þegar kom að meðferðum við geðrænum vanda og geðsjúkdómum. Saga þessara rannsókna, notkunnar hugvíkkandi efna til afþreyinga og and-menningarinnar á 7. og 8.áratug síðustu aldar samtvinnast í flókinn graut fordóma, lagasetninga sem byggðust á kynþáttafordómum og afturhvarfs til fortíðar. Í bók sinni How to Change Your Mind og samnefndri Netflix-seríu, fer blaðamaðurinn Michael Pollan í saumana á þessari áhugaverðu og flóknu sögu sem endaði með því að öll hugvíkkandi efni voru bönnuð, hvort sem það var til rannsókna eða einkanota í kringum 8. og 9.áratug síðustu aldar. 

Upphófust þá það sem Pollan kallar „myrku aldir hugvíkkandi rannsókna”, þar sem notkun efnanna var komin alveg út á jaðarinn og örfáir vísindamenn pukruðu hver í sínu horni með ólöglegar rannsóknir sínar. Það er ekki fyrr en í kringum aldamót sem að hræringar verða í málaflokki hugvíkkandi efna í meðferðarskyni og hafði þá nú þegar mikill skaði verið unnin hvað varðar almenningsálit á notkun þessara efna. Uppi voru margar rangfærslur, mýtur, sögusagnir og ýkjusögur um hræðilegar afleiðingar þess að neyta hugvíkkandi efna og hér væri um að ræða skaðlegustu efni á jörðinni. Vísindamenn hafa hinsvegar lengi vitað að svo er ekki og meðferðarmöguleikar efnanna eru gríðarlegir, séu hugvíkkandi efni notuð undir ströngu eftirliti, í hárnákvæmum skömmtum í klínísku meðferðarumhverfi og að því gefnu að sjúklingurinn hafi gott og heilbrigt hugarfar. 

Það má með sanni segja að nú séum við stödd á ákveðinni uppreisnaröld hugvíkkandi efna, þar sem fleiri og fleiri rannsóknir við virta háskóla á borð við London Imperial College, Harvard, Stanford og Johns Hopkins eru framkvæmdar á ári hverju og sýna jákvæðar niðurstöður. Það er staðreynd að lítið sem ekkert hefur breyst í geðlyfjalækningum síðan hefðbundin SSRI-SNRI lyf komu á markað fyrir um fjórum áratugum síðan og þó lyfjagjöfin hafa lítið breyst, höfum við sem mannkyn tekið miklum breytingum á þessum tíma. Breytingar á lífstíl okkar, heimahögum og sífellt meira upplýsingaflæði hafa gert það úr verkum að mörg okkar eiga nú við það sem kallast „meðferðarþrátt þunglyndi” (e. treatment resistant depression) eða flóknar áfallastreituraskanir, þar sem sjúklingur bregst ítrekað ekki við hefðbundnum aðferðum. Það þýðir í rauninni að fleiri okkar eru að taka hefðbundin geðlyf eða sækja okkur samtals- og sálfræðimeðferðir sem ekki eru að skila tilætluðum árangri eða niðurstöðum. 

Það er þar sem hugvíkkandi efni í meðferðarskyni koma til sögunnar en þeim er ætlað að fylla upp í þetta gat í heilbrigðiskerfinu, sem hefðbundar lækningar geta ekki. Rannsóknir Imperial College í London á psilocybin í smáskömmtum og stórum skömmtum sýna gríðarlega jákvæðar niðurstöður hjá sjúklingum með meðferðarþrátt þunglyndi. Að sama skapi hafa rannsóknir Dr. Rick Doblin og MAPS á notkun MDMA í meðerðarskyni sýnt sláandi niðurstöður á batahorfum sjúklinga með flókna og erfiða áfallastreituröskun. Flest þau sem rannsaka hugvíkkandi efni og beita sér fyrir lögleiðingu þeirra beita sér einna helst fyrir því að hugvíkkandi efni verði gerð lögleg og aðgengileg í sama skilningi og önnur þekktari geðlyf, þ.a.e.s. fæstir rannsakendur eru á því máli að opna eigi fyrir ótakmarkaða notkun efnanna í hvaða tilgangi sem er. Sambærilegar rannsóknir voru gerðar á THC og CBD, virku efnunum í kannabisi sem gáfu góðar og jákvæðar niðurstöður og hafa mörg fylki Bandaríkjanna, Kanada og fleiri Evrópulönd nú þegar afglæpavætt kannabisnotkun og leyft notkun þess í meðferðarskyni. Rannsakendur hugvíkkandi efna horfa gjarnan til þessa ferils og vilja líkja honum eftir þegar kemur að afglæpavæðingu og innleiðingu hugvíkkandi efna í hefðbundnar lækningar.

Á ráðstefnunni Psychedelics as Medicine koma saman helstu sérfræðingar á sviði rannsókna hugvíkkandi efna í meðferðarskyni. Hér er um að ræða hámenntaða og færa lækna, lyfjafræðinga, vísindamenn og konur sem hafa helgað sig þessum málaflokki og vilja deila visku sinni. Það er einlægur ásetningur ráðstefnunnar að upplýsa bæði almenning og íslenskt heilbrigðisstarfsfólk um notagildi hugvíkkandi efna í meðferðarskynim á sama tíma og ræddir eru áhættuþættir,  fyrirferðamikil hlutdrægni og auðvitað gamalgrónir fordómarnir sem fyrirfinnast á sviði hugvíkkandi meðferða. 

Það eru sannarlega spennandi tímar í þessum málaflokki og mikil jákvæð þróun að eiga sér stað. Það þýðir að með lögleiðingu hugvíkkandi efna í meðferðarskyni, ábyrgri notkun, fræðslu og þekkingu getum við í sameiningu unnið að því að aðstoða fólk með flókinn og margþættan geðvanda að öðlast betra, heilbrigðara og ánægjulegra líf til frambúðar. 

Taktu þátt í byltingunni og keyptu þér ráðstefnupassa á Psychedelics as Medicine í Hörpu janúar 2023.

Previous
Previous

Hvað er að gerast í málaflokki hugvíkkandi efna á Íslandi?

Next
Next

Hvað er smáskömmtun?